Sjálfbærniskýrsla Strætó 2023Árið 2023

Ávarp stjórn­ar­formanns

Það er fagnaðarefni að árið 2023 var stærsta árið í fjölda innstiga í Strætó síðan rafrænar talningar hófust. Þetta er afar mikilvægt enda leggja eigendur Strætó, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, árlega mikla fjármuni í rekstur og uppbyggingu Strætó. Samtals nema fjárframlög sveitarfélaganna nú yfir 6 milljörðum á ári og ríkið leggur til rúmlega 900 milljónir. Mun meira fjármagn þarf að leggja til, enda er vagnakostur kominn verulega til ára sinna og krafan um hröð orkuskipti er hávær. Fargjaldatekjur námu í fyrra liðlega tveimur milljörðum, eða liðlega 21% af heildartekjum Strætó sem námu í heildina um 9,5 milljörðum króna. Eigendastefna Strætó gerir ráð fyrir að fargjaldatekjur nemi 40%. Öðru hvoru þarf að breyta, fargjöldunum eða stefnunni. Ljóst er að hækka þarf fargjöld, minnka þjónustu eða sækja verulegt fjármagn frá sveitarfélögum og ríki.

Á síðasta ári fór mikið púður hjá stjórnendum Strætó í áframhaldandi björgunaraðgerðir vegna fjárhagsvanda. Hallarekstur varð á rekstrinum upp á tæplega 380 milljónir króna sem þó er veruleg bæting frá árinu áður þegar hallinn nam yfir 800 milljónum króna. Sveitarfélögin sýndu vilja í verki og bættu við framlögin en allir sjá að enn hærri framlög þarf til að reka fyrirtækið svo sómi sé að. Og endurnýjun vagnaflotans er risastórt átaksverkefni. Ef Strætó ætti að endurnýja allan vagnaflotann, þ.m.t. þann hluta (55%) sem rekinn er af verktökum, næmi fjárfestingin vel á annan tug milljarða króna. Af þessari ástæðu, og reyndar mörgum öðrum, er mikill vilji innan stjórnar Strætó að fara í enn frekari útvistun á akstrinum en því miður þokast hlutirnir afar hægt áfram. Rekstrarkostnaður verktaka er lægri en Strætó, núverandi fjárbinding í flotanum er alltof há og fer hækkandi, aldur vagna verktaka er mun lægri og kolefnisfótspor minna. Strætó rekur verkstæði fyrir fjölda tegunda bíla með tilheyrandi flækjustigi og enn fremur þvottastöð. Margt af þessu stenst illa skoðun á samkeppnismarkaði.

En verð hafa einnig hækkað hjá verktökum. Samningar við núverandi verktaka eru að renna út og núna stendur yfir samningskaupaútboð um þann hluta rekstursins sem útvistað er nú þegar. Miklar verðhækkanir komu í ljós í nýafstöðnu útboði og var öllum tilboðum hafnað. Margar ástæður eru fyrir hærri verðum, m.a. er verð á rafmagnsvögnum 60% hærra en á díselbílum, laun hafa hækkað verulega frá síðasta útboði og vaxtastig er hátt. Þetta sýnir glögglega að miklu meira fé þarf að koma inn í rekstur Strætó. Eigið fé er hátt í 400 milljónir í mínus og það gengur ekki til að mæta ófyrirséðum sveiflum í rekstri fyrirtækisins. Brýnt er að laga þessa stöðu án tafar.

Í allri umræðunni um orkuskiptin hafa ekki komið skýr svör frá ríkinu til Strætó hvernig niðurfellingu virðisaukaskatts á rafmagnsvagna verður háttað. Um er að ræða verulegar fjárhæðir enda kostar nýr rafmagnsvagn yfir 80 milljónir króna með vsk. Skýr svör þurfa að fara að koma frá ríkinu um hvernig á að styðja við Strætó í þeim orkuskiptum sem óumflýjanlega þurfa að fara fram. Það er afleitt að Strætó sé ekki kominn lengra í orkuskiptum því fyrirtækið á að vera fyrirmynd sem umhverfisvænn ferðamáti. Í staðinn spúa gamlir jálkar óhreinindum út í umferðina og andrúmsloftið. Strætó var nýlega að taka í gagnið 9 minni (8,5 metra) rafmagnsvagna en á fyrir 15 rafmagnsvagna. Hafa nýju vagnarnir vakið mikla eftirtekt og ánægju enda mikil prýði af þeim. Endilega prófið sem fyrst!

Hið víðfræga KLAPP, greiðslukerfi Strætó er komið í eðlilegan rekstur og er uppitími orðinn rúmlega 99,9%. Það er sem sagt ekki alltaf bilað eins og haldið er fram. Skönnunartími er þó enn of mikill og stendur til að skipta út skönnum samhliða því sem unnið er að innleiðingu á snertilausum greiðslum, sem samkvæmt tímaáætlun birgjans ættu að koma núna í vor. Því verkefni hefur seinkað meira en góðu hófi gegnir. Það er óásættanlegt í ljósi þess sem lagt var upp með í upphafi.

Það er sérlega ánægjulegt að sjá núna í upphafi árs hversu árið fer vel af stað fyrir Strætó. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru metmánuðir en aldrei hafa fleiri innstig mælst í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu í janúar og febrúar. Þannig að Strætó er að sækja í sig veðrið þó á brattann sé að sækja. Það er sannarlega eitthvað til að byggja á.

Og þá er það að lokum, mál málanna. Nú er búið að kynna fyrir eigendum nýtt leiðakerfi Strætó, þar sem Borgarlínunni er ætlað stórt hlutverk. Ekki er vitað hver muni annast reksturinn og hver áætlaður kostnaður af rekstri Borgarlínunnar verður. Ljóst er að nýtt leiðakerfi er mjög metnaðarfullt og ekki er útilokað að það geti kostað 15-20 milljarða á ári miðað við forsendur um tíðni og gæði. Til samanburðar kostar rekstur Strætó um 9,5 milljarða, þar sem ekkert má út af bregða í rekstrinum eins og fjárhagskafli þessarar skýrslu sýnir svo glögglega og áritun endurskoðanda staðfestir. Þetta gengur auðvitað ekki upp nema með því að byrja að tala um þetta gríðarlega stóra óleysta verkefni, Borgarlínuna, og komast að því hvernig og hver á að leysa það. Endurskoðun á Samgöngusáttmálanum stendur enn yfir. Endurskoðuninni átti að ljúka síðasta sumar og svo í desember. Og svo á næstu mánuðum á eftir. Ekkert heyrist. Vitað er að fjárhæðir í sáttmálanum hafa hækkað í 300-400 milljarða úr 120 milljörðum upphaflega, og samt er verkefnið að mestu í fjárhagsáætlunum enn þá. Allt er þetta með miklum ólíkindum.

Mjög miklu skiptir að þjónusta Strætó haldi áfram að eflast sama hvað kemur út úr endurskoðuðum Samgöngusáttmála og Borgarlínuhugmyndum. Það eru allt saman framtíðarhugmyndir á teikniborði og í Excel sem vissulega þarf að huga að, en rekstur Strætó er í járnum nákvæmlega núna og eigendur og notendur gera kröfu um góðan rekstur, þjónustu og vagna – í dag! Ég þakka stjórnendum og starfsfólki fyrir sín störf í gríðarlega erfiðum aðstæðum síðustu misseri. Og ekki síst Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem alltaf er á vaktinni, boðinn og búinn að svara fyrir Strætó og ágæti hans. Enda eru kröfurnar miklar og þær eiga enda að vera miklar. Bæði hjá notendum og eigendum. Strætó er góður og skemmtilegur samgöngumáti. En það þarf að hlúa vel að Strætó, hann er eign okkar íbúanna á höfuðborgarsvæðinu.

 

Magnús Örn Guðmundsson, stjórnarformaður


Ávarp fram­kvæmda­stjóra

Stjórnvöld þurfa að koma sterkar að borðinu og styðja markmið Strætó um kolefnislausan flota árið 2030.  Strætó hefur fjárfest í nýjum rafvögnum og í nýju útboði er einnig gerð krafa um kolefnislausan flota 2030. Einnig er nauðsynlegt  að eigendur Strætó, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stjórnvöld, tryggi Strætó forgang í umferðinni og hanni gatnakerfið með almenningssamgöngur að leiðarljósi þannig að fleiri velja þennan samgöngumáta.

Fjárhagur Strætó hefur ekki náð sér á strik eftir Covid – faraldurinn og áríðandi er að klára vinnu við fjárhagsskipan Strætó þannig að reksturinn sé sjálfbær. Meðalaldur vagna eru orðinn of hár og rekstraröryggi hluta flotans ótryggt. Rekstrarkostnaður hefur hækkað mikið, kostnaðarverðshækkanir eru enn miklar þó dregið hafi úr verðbólgu, launakostnaðar hefur aukist mikið og óvissa er mikil þar en kjarasamningar eru lausir á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Tap ársins 2023 var um 374 m.kr. Vegur þar hæst óreglulegar færslur, annars vegar færslu vegna tryggingafræðilegs endurmats frá Brú lífeyrifssjóði sem var birt félaginu í ársbyrjun 2024 og hins vegar vegna dómsmáls frá 2010 sem endanleg niðurstaða fékkst í með dómi Landsréttar í lok árs 2023. Eigið fé Strætó er neikvætt um rúmar 364 m.kr. og handbært fé er um 370 m.kr. í árslok 2023.

Farþegatekjur ársins eru rúmlega 2 milljarðar króna. Klapp greiðslukerfi Strætó er komið í eðlilegan rekstur og er uppitími orðinn rúmlega 99%. Skönnunartími á hluta farmiðla er þó enn of mikill og stendur til að skipta út skönnum samhliða því sem unnið er að innleiðingu á snertilausum greiðslum. Samkvæmt tímaáætlun birgjans ættu nýir skannar að koma í mars 2024. Búast má þó við að skönnunartími verði alltaf mestur á appmiðum, tíum og öðrum farmiðlum sem nota Aztec kóða.

Strætó hefur sett sér markmið um kolefnislausan flota árið 2030. Í dag er staðan þannig að um 15% af flotanum er kolefnislaus og til að mögulegt sé að ná markmiðinu er ljóst að það þarf að gefa í. Þetta er mikilvæg fjárfesting í lífsgæðum fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Stjórnvöld hafa dregið lappirnar í að styðja við orkuskipti í almenningssamgöngum og um síðustu áramót afnámu þau ívilnun sem var í gildi við innflutning á rafvögnum og fólst í niðurfellingu á virðisaukaskatti. Þó hægar gangi en reiknað var með er enn mögulegt að ná þessu markmiði með sameiginlegu átaki stjórnavalda og eigenda Strætó. Strætó er í miðju útboðsferli þar sem gerð er krafa um að vagnafloti akstursaðila verði orðinn kolefnislaus í lok árs 2030. Þar er um 70 vagna að ræða og með eðlilegri endurnýjun á vagnaflota Strætó næst þetta markmið. Óhætt er að segja að reynsla Strætó af rafvæðingu stórra bíla sé dýrmæt og er starfsfólk Strætó duglegt að deila reynslu sinni af því með öðrum sem eru að huga að orkuskiptum.

Strætó keypti rafvagna af minni gerð eða 8,5 metra sem eru hagkvæmari í rekstri og er ætlunin að nota þá á inn í hverfum á minni leiðum á höfuðborgarsvæðinu. Vagnarnar eru án aukahitunar og verður spennandi að sjá hvernig þeir koma út.

Strætó notast að mestu við svokallaða bækistöðvahleðslu, sem felst í því að settar eru upp hleðslustöðvar inn á bækistöð og vagnarnir hlaðnir allt að tvisvar sinnum á sólarhring. Þessi aðferðarfræði er að verða algengasta aðferðin á Norðurlöndunum enda þaulreynd og einföld tækni. Til viðbótar hefur verið sett upp hraðhleðslustöð í Spöng og á lokametrunum er að tengja aðra í Ásgarði. Uppsetning þessara stöðva er ætlað að minnka tómakstur þ.e. akstur í bækistöð til að hlaða.

Strætó rekur akstursþjónustu Pant fyrir fjögur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og þar hefur einnig orðið aukning á ferðum, en hafa ber í huga að fyrstu tveir mánuðir ársins 2022 var faraldur enn í gangi. Strætó hefur í samstarfi við Pant gert tilraunir með að nýta bíla Pant í pöntunarþjónustu í almenningssamgöngum og hefur það komið vel út. Stefnt er að því að á næsta ári verði skoðað hvort fýsilegt sé að nýta applausn til að panta ferðir í pöntunarþjónustu ef hagkvæmt þykir.

Starfsfólk Strætó langar að þakka öllum þeim fjölda viðskiptavina sem nýttu sér þjónustu okkar á árinu 2023. Árið 2023 er stærsta árið í fjölda innstiga síðan reglulegar mælingar í vögnum hófust. Er það ánægjuefni og sýnir að íbúar höfuðborgarsvæðisins eru tilbúnir að nýta sér umhverfisvæna ferðamáta í ríkari mæli.  Í þessu felast tækifæri fyrir Strætó sem nauðsynlegt er að grípa og styrkja bæði vagnaflotann og leiðakerfið til að mæta þessari auknu eftirspurn.  Í þessu sambandi er einnig nauðsynlegt að eigendur Strætó, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stjórnvöld, tryggi að Strætó hafi forgang í umferðinni til að auka áreiðanleika og stytta ferðatíma, en þetta eru þeir þættir sem viðskiptavinir leggja mikla áherslu á í öllum þeim könnunum sem gerðar eru. Það þarf að hanna gatnakerfið með almenningssamgöngur að leiðarljósi þannig að aðgengi að stoppistöðvum sé gott og tafir vegna umferðar, gatnamóta og umferðarljósa séu lágmarkaðar en með þessum aðgerðum er hægt að auðvelda íbúum höfuðborgarsvæðisins að velja umhverfisvæna ferðamáta.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó


Stjórn­ar­hætt­ir

Góðir stjórnarhættir Strætó eiga að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstri.

Stjórn Strætó birtir hér yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrir árið 2023. Stjórnarhættir vísa til hlutverks og ábyrgðar stjórnar og stjórnenda og því hvernig ákvörðunartaka fer fram, í samræmi við gildandi lög og reglur.


Hlut­verk Strætó

Strætó er þjónustufyrirtæki á sviði almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Undir þetta hlutverk fellur rekstur almenningsvagna og Pant akstursþjónusta sem er akstursþjónusta fyrir fatlaða og aldraða.


Stjórn­skipu­lag Strætó bs.

Strætó er byggðasamlag og í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborg, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes.

Stjórn Strætó fer með æðsta vald félagsins samkvæmt lögum, reglum og samþykktum. Meginskyldur stjórnar er að sinna eftirlitshlutverki með starfsemi félagsins. Hlutverk og skyldur stjórnar eru skilgreind ítarlega í starfsreglum stjórnar sem byggðar eru á stofnsamningi og eigendastefnu félagsins.

Í stjórn Strætó sitja sex fulltrúar sem kosnir eru af sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaganna til tveggja ára í senn. Jafnframt eru kosnir sex varafulltrúar til jafnlangs tíma. Stjórnarmenn og varafulltrúar þeirra skulu uppfylla hæfiskröfur sveitarstjórnarlaga. Fulltrúar sveitarfélaganna skiptast á að gegna formennsku stjórnar, tvö ár í senn.

Stjórn Strætó ræður framkvæmdastjóra sem fer með daglegan rekstur í samræmi við þá stefnu sem hún setur. Hlutverk og skyldur framkvæmdastjóra eru skilgreind ítarlega í starfsreglum stjórnar, framkvæmdastjóri Strætó er Jóhannes Svavar Rúnarsson. Stjórnin setur félaginu markmið og heildarstefnu og framtíðarsýn í samræmi við eigendastefnu og skilgreinir í henni mælikvarða í rekstri félagsins. Stefnan skal í það minnsta fela í sér markmið í umhverfismálum, jafnréttis- og starfsmannamálum.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þörf krefur, en stefnt skal að því að þeir verði ekki haldnir sjaldnar en mánaðarlega. Í upphafi hvers árs skal lögð fram starfsáætlun sem hefur að geyma áætlun fyrir reglubundna stjórnarfundi ársins. Á árinu 2023 voru haldnir 19 stjórnarfundir. Fundargerðir stjórnarfunda má nálgast á heimasíðu Strætó.

Stjórn framkvæmir árlega árangursmat þar sem lagt er mat á störf stjórnar, verklag og starfshætti.
Árangursmat stjórnar fór fram í febrúar 2023.

Stjórn Strætó 2023

Varamenn í Stjórn Strætó

  • Hjálmar Sveinsson, Reykjavík
  • Sigvaldi Egill Lárusson, Kópavogur
  • Margrét Vala Marteinsdóttir, Hafnarfjörður
  • Gunnar Valur Gíslason, Garðabær
  • Örvar Jóhannsson, Mosfellsbær
  • Ragnhildur Jónsdóttir, Seltjarnarnes

Framkvæmdastjórn Strætó


Lög, reglur og tilmæli

Strætó starfar á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í kafla 2 og 3 í stofnsamningi er nánari útlistun á stofnendum, eigendahlutföllum og stjórnskipulagi. Samkvæmt gr. 3.4 í eigendastefnu eiga stjórnarhættir að tryggja fagmennsku, hagkvæmni, ráðdeild, gegnsæi og ábyrgð í rekstrinum.

Stjórnarmenn skulu í störfum sínum fylgja lögum, eigendastefnu og starfsreglum stjórnar sem og sannfæringu sinni, gæta almannahagsmuna og hagsmuna byggðasamlagsins. Eigendastefna er aðgengileg á vefsíðu Strætó.

Einnig eiga eftirfarandi lög og reglur við um rekstur Strætó: Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi nr. 28/2017, og reglugerð um leyfi til að stunda farþegaflutninga og farmflutninga á landi.

Framsetning stjórnarháttayfirlýsingar 2023 er með hliðsjón af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út 1. júlí 2021 (6.útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland og Samtökum atvinnulífsins. Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á vefsíðu Viðskiptaráðs Íslands, https://leidbeiningar.is

Strætó uppfyllir ákvæði leiðbeininganna að frátöldum kafla 1 sem fjallar um hluthafa og hluthafafundi, þar sem það á ekki við um félagið. Einnig hefur ekki verið gerð starfskjarastefna, né starfskjaranefnd skipuð. Stefna um sjálfbærni og fjölbreytileika í tengslum við stjórn, framkvæmdastjórn og æðstu stjórnendur samkvæmt grein 2.9 hefur ekki verið skráð.

Strætó hefur sett sér ítarlegar starfsreglur, siðareglur og stefnumörkun sem hægt er að finna á heimasíðu Strætó. Helstu stefnur eru:

Innra eftirlit og áhættustjórnun

Innra eftirlit

Stjórn ber ábyrgð á því að til staðar sé virkt kerfi innra eftirlits og áhættustjórnunar, það sé skjalfest og virkni þess sannreynd reglulega. Innra eftirlit skal veita hæfilega vissu um; að félagið nái árangri og skilvirkni í starfsemi í samræmi við markmið félagsins; áreiðanleika og réttmæti fjárhagsupplýsinga sem veittar eru ytri aðilum og fylgt sé lögum og reglum sem gilda um starfsemina. Við uppbyggingu á innra eftirliti er tekið mið af ramma COSO, sem er alþjóðlegur viðurkenndur rammi um innra eftirlit.

Áhættustjórnun

Áhættustjórnun er ferli til að greina og mæla þá áhættuþætti sem komið geta í veg fyrir að félagið nái settum markmiðum.

Árlega skilgreinir Strætó þá áhættuþætti sem félagið þarf að takast á við og skilgreinir viðbrögð við þeirri áhættu sem um ræðir. Strætó flokkar áhættuþætti sína í eftirfarandi:

  • Kjarnaáhætta: Fylgir kjarnastarfsemi eins og hún er skilgreind í eigendastefnu Strætó, þ.e. að „starfrækja almenningssamgangnaþjónustu á svæði eigenda sinna með samræmdu leiðakerfi og gjaldskrá.“
  • Fjárhagsleg áhætta: sem skiptist í eftirfarandi undirflokka: markaðsáhætta, þ.e. áhrif markaðssveiflna á
    fjárhagslegan styrk Strætó. Lausafjáráhætta, þ.e. geta Strætó til að mæta rekstrarútgjöldum, standa undir
    greiðslubyrði lána, sinna reglulegu viðhaldi, endurnýja vagnaflota og ráðast í aðrar nauðsynlegar
    fjárfestingar. Mótaðilaáhætta, þ.e. áhrif hugsanlegra vanskila viðskiptavina á félagið, t.d. að eigendur og
    viðskiptamenn hafi fjárhagslega burði til að standa við skuldbindingar sínar við Strætó.
  • Rekstraráhætta: sem felur í sér áhættu vegna taps af ófullnægjandi eða gölluðum innri kerfum, vegna
    starfsmanna eða vegna ytri þátta, s.s. lagalegrar áhættu. Um er að ræða áhættu sem tengist
    starfsmönnum, ferlum og kerfum.

Til að tryggja að reikningsskil Strætó séu í samræmi við sveitarstjórnarlög og settar reikningsskilareglur, hefur félagið skilgreint ábyrgðasvið, eðlilega aðgreiningu starfa, skýrar verklagsreglur og verkferla og er með reglulega skýrslugjöf. Reglulegt eftirlit með afkomu og fylgni við samþykkta fjárhagsáætlun. Fjármálasvið leggur ársfjórðungslegt uppgjör fyrir stjórn.

Reikningsskil og endurskoðun

Fjármálasvið Strætó sér um gerð reikningsskila og birtir uppgjör sín ársfjórðungslega. Endurskoðunarnefnd tekur ársreikning félagsins til skoðunar og gefur stjórn álit sitt á reikningsskilunum sem samþykkir og undirritar. Meginhlutverk endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og áhættustjórnun. Ytri endurskoðandi félagsins er Grant Thornton endurskoðun ehf.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar starfar fyrir Reykjavíkurborg og dótturfyrirtæki hennar. Nefndina skipa Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi, Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi og Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun er skipuð af stjórn og heyrir beint undir hana. Innri endurskoðun fer með fjármála- og stjórnsýslueftirlit hjá Strætó. Í því felst að með störfum sínum leggur innri endurskoðun mat á og bætir virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnaráhættu. Innri endurskoðandi er Deloitte ehf.