Árið 2023 var metár í innstigum á höfuðborgarsvæðinu og hafa aldrei mælst fleiri innstig á ári síðan reglulegar mælingar hófust. Um 12,6 milljón innstig voru yfir árið 2023. Það voru um 13,4% fleiri innstig á árinu 2023 en árinu á undan, 2022.
Í janúarmánuði var mesta fjölgun innstiga á milli ára en það var rúmlega 48% fjölgun m.v. janúar 2022 en þá gætti enn töluverðra áhrifa vegna covid heimsfaraldursins og voru þá strangar samkomutakmarkanir.
Nokkrir metmánuðir voru einnig á árinu en alls voru sex mánuðir á árinu þar sem aldrei hafa mælst fleiri innstig í þeim mánuði áður, þetta voru janúar, mars, apríl, júní, nóvember og desember. Þar að auki var mars 2023 metmánuður allra mánaða þar sem aldrei áður hafa mælst jafn mörg innstig í neinum mánuði áður.
Leið 1 var með flest innstig árið 2023 eins og hefur verið undanfarin ár. Leið 1 er á 10 mín tíðni á annatíma og 15 mín tíðni yfir daginn á milli annatíma. Leið 12 var með næstflest innstig árið 2023 og þar á eftir var leið 4. Alltaf eru breytingar á milli ára en sem dæmi þá var leið 3 með þriðju flestu innstigin árið 2022 en árið 2023 er hún í sjötta sæti.
Leiðin sem var með hlutfallslegu mestu aukninguna á milli ára var leið 22 í Garðabæ með tæplega 39% aukningu á innstigum á milli ára. Leið 18 var með næstmestu hlutfallslegu fjölgun innstiga, um 22% fjölgun m.v. árið 2022. Leiðir 28, 35, 26 og 23 voru með færri innstig árið 2023 en 2022.
*Án næturleiða og pöntunarþjónustu
*Án næturleiða og pöntunarþjónustu
Meðalinnstigum á dag á virkum dögum árið 2023 fjölgaði á öllum tímum dags miðað við árin 2020-2022 nema á kvöldin eftir kl. 23:00. Mesta fjölgun innstiga yfir daginn var á milli kl. 19-23 en á þeim tíma fjölgaði innstigum um 16-17% miðað við árið á undan. Árið 2023 var með mesta fjölda meðalinnstiga á virkum dögum síðan reglulegar mælingar hófust, á virkum dögum voru að meðaltali 42.241 innstig á dag.
Mjóddin var fjölfarnasta stöðin árið 2023 eins og síðasta ár. Þar á eftir komu stöðvarnar Hlemmur og Ártún. Stöðin sem var með mestu hlutfallslegu fjölgun inn- og útstiga á milli ára var stöðin Norðurbær í Hafnarfirði sem var með 32% fjölgun. Verzló/Borgarleikhúsið var með næstmestu hlutfallslegu fjölgun inn- og útstiga á milli ára, tæp 21%. Tvær stöðvar á listanum yfir 20 fjölsóttustu stöðvarnar voru með örlitla fækkun inn- og útstiga m.v. árið 2022. Í Ártúni var 0,6% fækkun innstiga á milli ára og við Bíó Paradís var 3,5% hlutfallsleg fækkun á milli ára.
Næturleiðir 103,104,105 og 106 hófu akstur innan Reykjavíkur í lok febrúar 2023. Í lok ágúst 2023 var leið 106 lengd að Mosfellsbæ og í lok september hóf leið 101 akstur frá miðbæ Reykjavíkur í Hafnarfjörð.
Flest innstig voru á næturleiðum í september og næstflest í ágúst en fæst innstig voru í júlí.
Árið 2023 markaði fyrsta árið þar sem heimsfaraldur kórónuveiru hafði hvorki teljandi áhrif á innstig né öflun fargjaldatekna fyrir Strætó frá því að faraldurinn skall á vorið 2020. Fargjaldatekjur jukust umtalsvert frá fyrra ári, eða um 18,1% og frá árinu 2020 hafa fargjaldatekjur aukist um tæplega 54% á ársgrundvelli.
Fargjaldatekjur á milli ára. Allar fjárhæðir eru í þús. kr.
Árið 2023 voru tímabilskorthafar 20.127 talsins eða sem samsvarar um 8,13% af íbúafjölda höfuðborgarsvæðisins það ár og hafa þeir aldrei verið fleiri. Tímabilskorthöfum heldur því áfram að fjölga sem er mjög jákvæð þróun. Eitt af markmiðum Strætó og sveitarfélaganna er að efla notkun almenningssamgangna á meðal íbúa og reynslan hefur sýnt að þeir sem eiga tímabilskort nota strætó alla jafna oftar samanborið við þá sem ferðast á stökum fargjöldum.
Tímabilskorthafar | 2019 | 2020 | 2021 | 2022 | 2023 |
---|---|---|---|---|---|
Fjöldi tímabilskorthafa | 15.952 | 13.021 | 11.885 | 19.138 | 20.127 |
Íbúðafjöldi á höfuðborgarsvæðinu | 228.231 | 233.034 | 236.528 | 240.882 | 247.533 |
Hlutfall korthafa % | 6,99% | 5,59% | 5,02% | 7,94% | 8,13% |
Ánægja almennings gagnvart Strætó jókst lítillega á árinu 2023. Eins og áður eru þeir sem nota Strætó jákvæðari en þeir sem nota ekki Strætó.
Hversu jákvæð/ur eða neikvæð/ur ertu gagnvart Strætó á kvarðanum 1-5?
Markmið Strætó þegar kemur að markaðsmálum eru ávallt að efla notkun almenningssamgangna og annarra vistvænna ferðamáta meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins. Gögn varðandi fjölda innstiga gefa til kynna að vel hafi gengið hvað varðar þau markmið, en metfjöldi innstiga mældist á árinu eða 12.64 milljón innstig. En betur má ef duga skal og eru markmiðin áfram að efla notkun almenningssamgangna, fjölga korthöfum og vinna að framþróun á greiðslulausnum til að bæta og auka aðgengi allra að þjónustu Strætó á komandi árum.
Gamla Strætó appinu var lokað þann 1. júlí 2023 enda öll virkni sem viðkemur leiðakerfi og miðum fyrir höfuðborgarsvæðið komin í Klappið auk annarra nýjunga.
Viðskiptavinir gátu fengið miðana sína í Klappið eða fengið þá endurgreidda eftir því hvort var að ræða miða á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Breytingin gekk vel og eins gekk vel að færa eða endurgreiða miða fyrir viðskiptavini sem höfðu samband.
Strætómeistarinn var fyrirferðarmikill í markaðsstarfi ársins 2023. Herferðin var hluti af samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Strætó bs. og hlaut styrk úr sjóði Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins.
Vilhelm Neto, leikari og skemmtikraftur bregður sér í hlutverk kennara í herferðinni þar sem farið er yfir nokkra lykilþætti í þjónustu Strætó í átta kafla Strætó meistarakúrs. Markmið herferðarinnar var að miðla upplýsingum um þjónustuna og ekki síst hvernig nota má mismunandi farmiðla í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Efnistök í herferðinni tóku mið af niðurstöðum viðhorfsmælinga sem gerðar voru við undirbúning herferðarinnar.
Árangur herferðarinnar verður að teljast nokkuð góður, þar sem viðhorfsmælingar í kjölfar herferðarinnar sýndu fram á að viðhorf innan markhópa herferðarinnar mældist umtalsvert jákvæðara en fyrir herferð. Til að mynda mældist viðhorf meðal þeirra sem tilheyra aldurshópnum 25-34 ára um 20% jákvæðara en mældist í fyrri mælingu. Niðurstöðurnar sýndu einnig að um 22% svarenda sýndu fram á aukinn áhuga á að nota Strætó eftir að hafa séð auglýsingar úr herferðinni.
Til að grípa athygli stúdenta og vekja athygli á kostum þess að ferðast með Strætó var breytt um áherslur í skilaboðunum til þess hóps. Fókusinn var settur beint á buddu stúdenta og reynt að vekja athygli á hver mánaðarlegur kostnaður mismunandi ferðamáta er. Borinn var saman kostnaðurinn á mánuði við að: reka bíl, ferðast með námsmannakorti í Strætó og að ganga í skólann.
Eins og undanfarin ár settu Hinsegin dagar svip sinn á vagnaflota Strætó árið 2023. Innblástur að útliti vagnsins var fenginn beint úr yfirskrift Hinsegin daga ársins, „Baráttan er ekki búin“. Yfirskriftin er tilkomin vegna þess mikla bakslags sem hefur orðið í umræðu og viðhorfi í garð hinsegin fólks á undanförnum misserum.