Sjálfbærniskýrsla Strætó 2023Ársreikningur

Árs­reikn­ing­ur 2023

Rekstrarniðurstaða er neikvæð um 374 m.kr. (2022: neikvæð um 834 m.kr.), en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 243 m.kr. Vegur þar hæst óregluleg færsla vegna dómsmáls frá 2010 sem endanleg niðurstaða fékkst með dómi Landsréttar í lok árs 2023. Einnig er um að ræða óreglulega færslu vegna tryggingafræðilegs endurmats frá Brú lífeyrissjóði sem birt var félaginu í ársbyrjun 2024 (sjá nánar skýringu: 31 ).

Eigið fé er neikvætt í lok árs um 364 m.kr. (2022: jákvætt um 9,8 m.kr). Handbært fé hefur dregist saman um 170 m.kr. og nam 370 m.kr. í árslok (2022: 539 m.kr.). Fjárfest var í níu rafmagnsvögnum á árinu, en um er að ræða minni gerð vagna eða 8,5 metra og er ætlunin að nota þá inn í hverfum á minni leiðum. Þrátt fyrir nýja vagna þá er meðalaldur vagna orðinn of hár og rekstraröryggi hluta flotans ótryggt. Strætó hefur sett sér markmið um kolefnislausan flota árið 2030, en í dag er um 15% af flotanum kolefnislaus. Með sameiginlegu átaki ríkis og eigenda Strætó er enn mögulegt að þessu markmið verði náð.


Reikn­ings­skil og end­ur­skoð­un

Fjármálasvið Strætó sér um gerð reikningsskila og birtir uppgjör sín ársfjórðungslega. Endurskoðunarnefnd tekur ársreikning félagsins til skoðunar og gefur stjórn álit sitt á reikningsskilunum sem samþykkir og undirritar.

Meginhlutverk endurskoðunarnefndar er að hafa eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits félagsins, innri endurskoðun og áhættustjórnun. Ytri endurskoðandi félagsins Grant Thornton endurskoðun ehf. endurskoðar reikningsskilin einu sinni á ári.

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar starfar fyrir Reykjavíkurborg og dótturfyrirtæki hennar. Nefndina skipa Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, Sigrún Guðmundsdóttir, löggiltur endurskoðandi, Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi og Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur.